Innlent

Ódýrara að dópa en drekka

Að mati áfengisheildsala ætti fjármálaráðherra að endurskoða álögur ríkisins á áfengi í stað þess að hvetja heildsala til að gera betur. Þá segir hann að nú sé orðið ódýrara að dópa en drekka á Íslandi.  Geir H. Haarde fjármálaráðerra sagði í fréttum Stöðvar 2 í gær að hann hefði grun um að neytendur njóti ekki sterkrar stöðu krónunnar sem skyldi og nefndi sem dæmi könnun á vöruverði hjá ÁTVR. Hann hvatt heildsala sem eiga í viðskiptum við ríkið til að standa sig betur. Áfengisheildsölum finnst skjóta skökku við að heyra þetta frá ráðherra þar sem áfengi beri gríðarlegar álögur frá ríkinu. Bjarni Brjánsson, vörumerkjastjóri hjá Ölgerðinni, segir að sem dæmi megi nefna að í desember hafi áfengisgjald á sterku áfengi hækkað um 7%. Hækkunin á útsöluverði hafi hins vegar ekki hækkað jafn mikið og sem þýði að Ölgerðin hafi tekið á sig stóran hluta hækkunarinnar. „Ég er því mjög hissa á þessum ummælum,“ segir Bjarni. Ef dæmi er tekið af vodkategund sem seld er í ríkinu sést klárlega að mikill meirihluti þess sem fólk greiðir fyrir flöskuna rennur til ríkissjóðs. Áfengisgjaldið er 64 prósent, skilagjald vegna umbúða 0,3 prósent, álagning ÁTVR er 5,5 prósent og virðisaukaskatturinn tæp tuttugu prósent. Kostnaður vegna heildssala er um 10 prósent. Bjarni segir því nær að ráðherra endurskoði álögur ríkisins. Sjálfur eigi hann 19 ára gamlan dreng og samkvæmt honum og vinum hans sé auðveldara að ná í eiturlyf en áfengi, auk þess sem eiturlyfjaverð virðist vera um einn fjórði af áfengisverði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×