Innlent

Skafrenningur, snjóblinda og hálka

Færð var ekki sem best á höfuðborgarsvæðinu í gær. Færð í efri byggðunum í Grafarvogi var slæm og mikið fjúk. Íbúar áttu í vandræðum með akstur en lögreglan í Reykjavík veitti þeim hjálp sem þurftu. Í Kópavogi var þó nokkuð um árekstra sökum færðar en ekkert um alvarleg slys og voru þau mörg leyst með einfaldri tjónaskýrslu. Einn bíll missti stjórn á bíl sínum og fór upp á vegrið en einn lenti út af vegi. Þeir sem í bílunum voru hlutu engin alvarleg meiðsl og eru bifreiðarnar í ágætis standi. Samkvæmt lögreglunni í Kópavogi var mikil hálka og skafrenningur í gær en einnig blés mikið inn á vegina sem truflaði ökumenn. Nokkur óhöpp urðu á Hafnarfjarðarveginum en öll minniháttar. Sama var uppi á teningnum á Hellisheiðinni. Nokkrir bílar fóru út af vegi en lítið var um alvarlegt tjón. Seinni partinn í gær fór bíll út af vegi og lenti í skurði við Geysi í Haukadal. Sex útlendingar voru í bílnum og voru allir fluttir á Landspítala-háskólasjúkrahús til skoðunar. Tveir voru með minniháttar yfirborðsáverka og voru allir sex sendir heim. Bíllinn er talsvert ónýtur en samkvæmt lögreglunni á Selfossi var það hálka og snjóblinda sem olli slysinu sem og öðrum útafakstri á Hellisheiðinni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×