Innlent

Eftirlitið samkvæmt reglum

Jóel undir Lætinum, umboðsmaður Samskipa sem fylgdist með sjóprófum á ástæðum þess að Jökulfell sökk, segir að eftirlit skipverja með farminum, 2000 tonnum af stáli, hafi verið reglum samkvæmt. Óvenju slæmt veður virðist helsta ástæða þess að Jökulfellið sökk norðaustur af Færeyjum aðfaranótt þriðjudags. Sjópróf fóru fram í Þórshöfn í Færeyjum í gær. Þar báru þeir fimm sjómenn, sem lifðu slysið af, vitni. Jóel undir Lætinum, umboðsmaður Samskipa, fylgdist með sjóprófunum. Hann segir að í framburði sjómanna hafi komið fram að veðrið hafi verið mun verra en talið hefur verið. Halli skipsins undir kvöld hafi verið orðið um 40 gráður. Síðan hafi há alda riðið yfir skipið sem orsakaði enn meiri halla og að endingu lagðist skipið á hliðina. Eftir það varð ekki aftur snúið. Jóel segir að eftirlit skipverja með farminum, 2000 tonnum af stáli, hafi verið reglum samkvæmt. Allt bendi því til þess að óvenju slæmt veður á þessum slóðum sé ástæða þess að skipið sökk. Sex skipverjar fórust með Jökulfellinu. Skipverjarnir fimm sem lifðu af fóru í morgun frá Færeyjum til Kaupmannahafnar. Þeir fljúga síðar í dag þaðan til síns heima í Eistlandi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×