Innlent

Fjórir á sjúkrahús eftir árekstur

Fjórir voru fluttir á sjúkrahús eftir harðan árekstur við bæinn Fiskilæk í Mela-og Leirársveit í gærkvöld. Bifreiðarnar rákust beint framan á hvor aðra. Í öðrum var par og nota varð klippur til að ná þeim út úr bifreiðinni. Óttast er að þau séu illa slösuð að sögn lögreglu. Tveir karlmenn voru í hinni bifreiðinni og svo virðist sem meiðsl þeirra hafi ekki verið eins alvarleg. Þá skullu jeppi og fólksbifreið saman við Skorholt, sem er næsti bær við Fiskanes, í gærkvöld. Talið er að meiðsl á fólki í þeim árekstri séu minniháttar. Í báðum árekstrunum var bifreið ekið yfir á öfugan vegarhelming. Í umdæmi lögreglunnar á Borgarnesi urðu fimm umferðaróhöpp á fáeinum klukkustundum í gærkvöld og rak hvað annað. Mikill skafrenningur, hálka og slabb var á vegum og segir lögregla það geta skýrt þessa hrinu umferðarslysa.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×