Innlent

Skyndihjálp ætti að vera skyldufag

"Ef ég hefði ekki tekið þetta skyndihjálparnámskeið hefði ég að líkindum frosið og ekki orðið að neinu gagni," segir Anton Gylfi Pálsson, sem hlaut nafnbótina Skyndihjálparmaður ársins við athöfn í Smáralind í gær. Tilefnið var hinn svokallaði 112 dagur þar sem allar þær stofnanir og félög sem koma að neyðarhjálp í landinu kynntu starfsemi sína. Anton Gylfi hlaut heiðurinn fyrir að hafa ásamt tveimur félögum sínum komið Ásgeiri Sigurðssyni til hjálpar í október síðastliðnum. "Við vorum á leið út í bíl eftir handboltaleik og tókum eftir að ekki var allt með felldu hjá Ásgeiri. Hann var ekki með lífsmarki í bíl sínum og því dró ég hann út og hóf lífgunaraðferðir meðan félagar mínir hringdu í Neyðarlínuna." Tókst þeim að koma hjartslætti af stað áður en sjúkrabíll kom aðvífandi og tókst þannig að bjarga lífi Ásgeirs. Anton er því vel að nafnbótinni kominn. Er það mat Antons að allt of fáir Íslendingar kunni skyndihjálp og vill sjá slíkt gert að skyldufagi í grunn- eða menntaskólum á Íslandi. Rauði krossinn veitti fleiri viðurkenningar fyrir svipuð afrek, en slíkt hefur verið gert árlega síðan árið 2000 og er gert til að minna almenning á þörf þess að kunna undirstöðuatriði í skyndihjálp þegar eitthvað bjátar á.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×