Innlent

Um 1,5 - 2 milljarðar í fangelsin

Stefnt er að því að kostnaður við byggingu nýs fangelsis á Hólmsheiði og verulegar endurbætur þriggja annarra fangelsa fari ekki fram úr 1,5-2 milljörðum króna, að sögn Valtýs Sigurðssonar forstjóra Fangelsismálastofnunar.  Unnið er nú af krafti við að útfæra grunnhugmyndir Fangelsismálastofnunar um framtíðarskipan fangelsa hér á landi, að sögn hans. Lokið hefur verið við að gera drög að stækkun fangelsisins á Akureyri og nemur kostnaðaráætlun 150 milljónum króna en þar af er breyting á húsnæði lögreglu upp á um 50 milljónir. Fangelsið verður stækkað um tvo klefa þannig að þar verði tíu klefar en megináhersla lögð á að gera það rekstrarhæft sem fangelsi, að sögn Valtýs, þar sem föngum verði sköpuð aðstaða til vinnu og útbúin aðstaða til heimsókna, sem engin er í dag. "Fangelsið er hvorki fugl né fiskur," sagði Valtýr. "Að mínu mati á að loka því ef það verður ekki gert mannsæmandi." Þá er verið að gera frumdrög að stækkun á Kvíabryggju um 5-6 pláss, þannig að þar yrði unnt að vista allt að 20 fanga að sögn Valtýs sem sagði fjölgun á opnum fangelsisplássum forgangsatriði. Kostnaðaráætlun lægi ekki fyrir um það verk, eða við Litla-Hraun og nýja fangelsisbyggingu á Hólmsheiði, en stefnt væri að því að frumteikningar og kostnaðaráætlun á "öllum pakkanum" lægi fyrir mánaðamót. Björn Bjarnason dómsmálaráðherra hefði gefið grænt ljós á að hefja vinnu við þessa grunnþætti og væri henni nú hraðað eftir megni. "Samkvæmt fyrri drögum að Hólmsheiðarfangelsinu var reiknað með að það yrði venjulegt öryggis- og vinnufangelsi, sem kostaði einn og hálfan milljarð. Ekki var gert ráð fyrir breytingum í fangelsunum á Akureyri, Kvíabryggju eða Litla-Hraun í því dæmi. Þá var gert ráð fyrir að fangelsið í Kópavogi yrði starfrækt áfram en því viljum við loka. Ég er að vona að allur pakkinn kosti ekki meira en einn og hálfan til tvo milljarða, en þá er reiknað með verulegri uppbyggingu á Litla-Hrauni." Valtýr sagði að núverandi hugmyndir um nýja fangelsið miðuðu að því að þar yrðu afreitrunar- og meðferðardeild, sjúkradeild og gæsluvarðhaldsdeild. Með því ætti að gera menn hæfa til að fara í meðferð í upphafi afplánunarferilsins og vistast síðan áfram vímuefnalausir.  Eins og staðan er í dag eiga fangar kost á að ljúka síðustu sex vikum afplánunar í vímuefnameðferð.  Varðandi afplánun kvenna sagði Valtýr að ráð væri fyrir því gert að hægt væri að vista konur í öllum fjórum fangelsunum, á Litla-Hrauni, Kvíabryggju, Hólmsheiði og Akureyri, og þá á sérstökum deildum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×