Innlent

Ekki vilja allir heyra íslensku

Njáll Eiðsson hefur lengi verið viðloðandi knattspyrnuna en hann er jafnframt grunnskólakennari og er því annt um ungviðið. Hann er þó ekki þeirrar skoðunar að íslenskri tungu sé sérstök hætta búin þótt fótboltalýsingar séu á ensku. "Það er enska í öllu umhverfi barnanna og ef við foreldrarnir og kennararnir tölum góða íslensku við þau þá held ég að það skemmi ekki fyrir að einhverjum leikjum á ári sé lýst á ensku. Hinu má hins vegar ekki gleyma að það er ákveðinn hluti þjóðarinnar sem skilur ekki ensku þannig að það er örugglega margir sem vildu gjarnan hafa þetta á íslensku." Njáll segist sjálfur láta sér í léttu rúmi liggja á hvoru tungumálinu lýsingarnar eru. "Mér finnst þetta gott í bland. Ég vil nú samt meina að sumir íslensku íþróttamannanna tali ekki nógu góða íslensku, því miður," og segir að málverndarsjónarmiðin megi sín því stundum lítils. "Ég þekki menn sem vilja ekki heyra íslenskuna heldur fara á krár til að geta heyrt lýsinguna á ensku enda þótt þeir gætu horft á þetta heima hjá sér," bætir Njáll við en kveðst þó ekki vera í þessum hópi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×