Innlent

Jökulfell: Leit hætt í dag

Leit hefur verið hætt að sinni að skipverjunum tveimur, sem enn er saknað af flutningaskipinu Jökulfelli sem sökk í gærkvöldi, vegna slæms veðurs. Leitin mun hefjast aftur í fyrramálið. Lík fjögurra sjómanna af  skipinu fundust á ellefta tímanum í morgun en þyrla af danska eftirlitsskipinu Vedderen bjargaði fimm skipverjum sem voru á sundi í sjónum þegar þyrlan kom að. Átta skipverjanna eiga ríkisfang í Eistlandi og þrír í Rússlandi. Sex metra ölduhæð var á svæðinu þegar slysið varð og vindur 15 metrar á sekúndu sem að öllu jöfnu hefði ekki átt að ógna öryggi skipsins. Það virðist hafa marað á hvolfi í 2-3 klukkustundir en um miðnætti var það sokkið. Samskip hefur haft skipið á leigu í rúmt ár og var það lestað 2000 tonnum af stáli sem það átti að flytja frá Lettlandi til Reyðarfjarðar og Reykjavíkur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×