Innlent

Fleira ræður en aldur fanga

Það verður að horfa til fleiri þátta heldur en aldurs við vistun í fangelsi eða á deildum innan fangelsis," segir Erlendur S. Baldursson deildarstjóri Fangelsismálastofnunar um tillögur Ágústs Ólafs Ágústssonar alþingismanns um sérdeild fyrir unga fanga. Að sögn Erlends eru nú vistaðir 123 fangar í fangelsum landsins. Af þeim eru 27% eða samtals 33 fangar 24 ára og yngri. Tveir yngstu fangarnir eru fæddir árið 1985 og því 19 ára gamlir. Af þessum 33 föngum eru tveir erlendir karlar og þrjár konur. Sakaferillinn er allt frá umferðalagabrotum til grófra ofbeldisbrota. "Meirihlutinn hefur ekki afplánað áður, aðrir hafa margar afplánanir að baki," segir Erlendur. "Hluti fanganna hefur verið í mikilli vímuefnaneyslu frá unga aldri og á jafnvel margar meðferðir að baki. Aðrir eiga lítt eða ekki við slíkan vanda að stríða. Sumir koma frá góðum félagslegum aðstæðum og hverfa til þeirra aftur að lokinni afplánun, aðrir hafa brotið flestar brýr að baki sér. Sumir eiga auk þess við veruleg geðræn vandamál að stríða. Eins og sjá má á þessi stóri hópur yfirleitt lítið annað sameiginlegt en ungan aldur. Eldri föngum er einnig hægt að gera skil á sama hátt og þeim yngri. Aðstæður þeirra eru afar misjafnar með tilliti til ofangreindra þátta." Erlendur segir, að skilgreining þingmannsins um unga og óreynda fanga annars vegar og eldri og forherta fanga hins vegar sé einungis lítill hluti af þeirri heildarmynd sem fangelsisyfirvöld standi frammi fyrir. Af þeirri ástæðu geti verið heppilegt að vista ungan og óreyndan fanga með eldri og óreyndari fanga eða ungan og "erfiðan" fanga með eldri fanga sem á við fá vandamál að glíma. "Þá getur verið mjög óheppilegt að vista saman á einni fangelsisdeild marga unga menn sem hafa staðið saman í afbrotum um margra ára skeið. Oft getur verið heppilegra að aðskilja þá á deildum eða í fangelsum." Um það sem fram kemur hjá þingmanninum, að hlutfall þeirra sem "lenda í kasti við lögin" sé hærra hér á landi en annars staðar segir Erlendur að hið rétta sé að í tilvitnaðri rannsókn Helga Gunnlaugssonar segi skýrt að "niðurstöður þessarar rannsóknar benda til þess að ítrekunartíðni þeirra sem ljúka fangavist á Íslandi sé mjög svipuð því sem tíðkast meðal annarra þjóða." Þá sé það athyglisverð staðreynd að fangafjöldi á Íslandi sé hlutfallslega 40-50% lægri en á hinum Norðurlöndunum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×