Bráðaviðvörunarkerfi opnað

Umhverfisráðherra mun á föstudaginn opna fyrir aðgengi almennings að bráðaviðvörunarkerfi Veðurstofunnar um jarðvá. Með bráðaviðvörun er átt við alhliða viðvörun og upplýsingar sem komið er á framfæri frá þeim tíma sem vart verður við að hamfarir séu að hefjast eða líkur eru á að þær séu yfirvofandi. Meginmarkmið bráðaviðvörunarkerfisins er að gera eftirlit með jörðinni virkara þannig að draga megi úr tjóni vegna jarðskjálfta og eldgosa. Kerfið er þegar nýtt til þessara þarfa í daglegu starfi Veðurstofunnar en jafnframt er mikil þróunarvinna fyrirsjáanleg til að efla það frekar á þessu sviði. Kerfið byggir annars vegar á samtímaeftirliti með jarðskjálftum og jarðskorpuhreyfingum og hins vegar á því að gera alla tiltæka þekkingu, sem komið getur að notum við gerð bráðaviðvarana, aðgengilega á fljótvirkan hátt. Jafnframt er það markmið með rekstri kerfisins að bæta upplýsingaflæði til almennings um hvers konar jarðskorpuhreyfingar og er það einmitt sá hluti kerfisins sem verið er að opna nú.