Sport

Lýsingar verða að vera á íslensku

Íslenska sjónvarpsfélagið, sem rekur sjónvarpsstöðina Skjá einn, má ekki senda út leiki í ensku knattspyrnunni með lýsingum á ensku samkvæmt úrskurði Útvarpsréttarnefndar. Nefndin segir þetta ekki samræmast 8. grein útvarpslaga þar sem segir m.a. að efni á erlendu máli, sem sýnt er á sjónvarpsstöð, skuli jafnan fylgja íslenskt tal eða texti á íslensku eftir því sem við á hverju sinni. Tilefni úrskurðarins er kæra sem nefndinni barst í október síðastliðnum. Nefndin beinir því til Íslenska sjónvarpsfélagins að hætta útsendingu á knattspyrnuleikjum sem ekki fylgir tal eða texti á íslensku í samræmi við umrætt ákvæði laganna. Útvarpsréttarnefnd vekur athygli á því að misbrestur á tal- eða textasetningu efnis á erlendu máli í samræmi við áðurnefnd lög varðar fésektum. Þá getur nefndin afturkallað leyfi til útvarps ef reglur eru brotnar, enda sé um alvarleg eða ítrekuð brot að ræða. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. útvarpslaga, nr. 53/2000, skal efni á erlendu máli, sem sýnt er á sjónvarpsstöð, jafnan fylgja íslenskt tal eða texti á íslensku eftir því sem við á hverju sinni. Það á þó ekki við þegar fluttir eru erlendir söngtextar eða þegar dreift er viðstöðulaust um gervitungl og móttökustöð fréttum eða fréttatengdu efni sem sýnir að verulegu leyti atburði sem gerast í sömu andrá. Við þær aðstæður skal sjónvarpsstöð, eftir því sem kostur er, láta fylgja endursögn eða kynningu á íslensku á þeim atburðum sem orðið hafa. Að áliti útvarpsréttarnefndar getur útsending á leik í heild sinni í ensku úrvalsdeildinni hvorki talist frétt né fréttatengt efni. Verður því eingöngu talið að um sé að ræða útsendingu frá erlendum íþróttaviðburði sem ekki er undanþeginn skyldu 1. mgr. 8. gr. útvarpslaga til að láta tal eða texta á íslensku fylgja.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×