Innlent

Frestar skilum á skýrslu

Fjölmiðlanefndin sem menntamálaráðherra skipaði í október síðastliðnum nær ekki að skila greinargerð sinni á tilsettum tíma, en áætlað var að nefndin skilaði af sér skýrslu í dag. Karl Axelsson, formaður nefndarinnar, segir að tíminn sem nefndinni var gefinn hafi einfaldlega ekki reynst nægilegur til þeirra starfa sem henni voru ætluð. Hann segir ekki tímabært að greina frá því sem nefndin er að skoða. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra skýrði frá því við skipun nefndarinnar að hlutverk hennar yrði margþætt og fælist meðal annars í því að skoða þróun evrópskrar fjölmiðlalöggjafar og leggja mat á þróunina í íslensku fjölmiðlaumhverfi, ekki síst hvað varðar stafrænar útsendingar. Nefndinni var einnig falið að skoða samþjöppun eignarhalds á fjölmiðlum á Íslandi, sem og markaðsstöðu Ríkisútvarpsins og hlutverk þess. Auk Karls sitja í nefndinni Kristinn Hallgrímsson, Pétur Gunnarsson, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Kolbrún Halldórsdóttir og Magnús Þór Hafsteinsson.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×