Innlent

Bændur vilja svigrúm til sölu

Bændur vilja meira svigrúm til að selja afburðir sínar beint frá búunum og leggur nefnd á vegum landbúnaðarráðherra meðal annars til að kannað verði hvort slaka megi á kröfum um gerilsneyðingu mjólkur. Draumur landbúnaðarráðherra er sá að ferðamenn á leið um sveitir landsins, jafnt innlendir sem erlendir, geti keypt afurðir sveitanna beint og milliliðalaust af bændunum og þess vegna setti hann nefnd í málið fyrir ári sem kynnti niðurstöður sínar í dag. Ingibjörg Ólöf Vilhjálmsdóttir, formaður nefndarinnar, segir að um sé að ræða sóknarfæri fyrir bændur og það sýni sig í Noregi að það færi bændum auknar tekjur að eiga möguleika á að selja framleiðslu sína milliliðalaust. Vandinn er hins vegar sá að lög og reglur hindra bændur svo sem í að selja mjólk beint úr kúnni. Nefndin vill því að kannað verði hvort gera megi tilslakanir. Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra segir að íslenskir og erlendir ferðamenn kalli á þessa þróun og íslenskir bændur séu á margan hátt tilbúnir að verða við þessu kalli. Þess vegna verði stjórnvöld, með samvinnu ráðuneyta og bændasamtaka og ferðaþjónustubænda, að sjá skref stigin í þessa átt og vinna málið hratt. Hann tekur þó fram að menn verði áfram að búa við matvælaöryggi. Það eru ekki síst ferðaþjónustubændur sem sjá tækifærin. Marteinn Njálsson, formaður Félags ferðaþjónustubænda, segir að í öðrum löndum hafi bændur sínar bændabúðir og -markaði. Þar selji bændur vöru sína beint til kaupandans án þess að þurfa að senda hana í dreifingu. Í þessum löndum gildi aðrar reglur og matvælaeftirlit sé með öðru sniði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×