Innlent

Orsök bilunar finnst í þurrkví

Ekki verður hægt að segja til um hvað olli biluninni í Dettifossi á föstudaginn fyrr en skipið verður komið í þurrkví. Stórt, þýskt dráttarskip er á leiðinni hingað til lands til þess að draga Dettifoss til Rotterdam. Þýska dráttarskipið Primus, sem er nærri fimmtíu metra langt og vegur um 120 tonn, er væntanlegt til Eskifjarðar á miðvikudag. Áætlað er að ferðin til Rotterdam taki sex daga þar sem Dettifoss verður tekinn í þurrkví til viðgerðar. Varðskipin Týr og Ægir komu með Dettifoss í togi til Eskifjarðar um miðnætti eftir svaðilför út af Austfjörðum sem hófst með því að stýrið datt af Dettifossi á föstudagskvöldið og skipið varð stjórnlaust. Vel gekk að leggja skipinu að bryggju enda var verður orðið gott. Skipstjórinn, Halldór Guðmundsson, sagðist ekki vita hvað hefði valdið biluninni í viðtali sem tekið var við hann rétt eftir að í land var komið. Hann hefði ekki séð undir skipið fyrir utan eina mynd sem hann hefði fengið frá öðru varðskipinu. Eflaust fyndu menn út fljótlega hvað hefði gerst. Að sögn Höskuldar Ólafssonar, aðstoðarforstjóra Eimskips, eru um það bil tíu dagar þar til hægt verður að segja til um hvað olli því að skipið varð stjórnlaust á föstudaginn. Kafarar könnuðu í dag skemmdir á skipinu en umfang þeirra kemur ekki í ljós að fullu fyrr en eftir að skipið verður tekið í þurrkví. Ljóst er þó að smíða þarf nýtt stýri og verður skipið frá siglingum í að minnsta kosti þrjár vikur. Nú er unnið að því að leigja skip í stað Dettifoss á meðan á viðgerðum stendur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×