Innlent

Kostnaðaráætlun Vegagerðinnar raunhæf

Vegamálastjóri er ekki í neinum vafa um að kostnaðaráætlun Vegagerðinnar vegna jarðganga til Eyja sé raunhæf. Hún er helmingi hærri en áætlun sænska fyrirtækisins NCC. Hann segir muninn geta falist í því að NCC miði við aðstæður í Færeyjum en ekki á Íslandi. Vegagerðin gerði kostnaðaráætlun sem var miðuð við 18 kílómetra löng göng milli Landeyja og Vestmannaeyja sem hljóðaði upp á 30 milljarða. Samkvæmt áætlun sem Árni Johnsen segist hafa fengið hjá sænska fyrirtækinu NCC yrði kostnaðurinn þó ekki nema 16 milljarðar. Jón Rögnvaldsson vegamálastjóri segist ekki geta útskýrt þennan gríðarlega mikla mun. Um sambærileg göng er að ræða, jafnlöng og á sama stað. Hann telur helst að NCC gefi sér aðrar forsendur en Vegagerðin. Í plöggum NCC komi fram að fyrst og fremst sé miðað við verð á göngum í Færeyjum þar sem berg er þéttara og þörf á minni styrkingu. Árni Johnsen hefur sagt um 16 milljarða áætlun NCC að loksins sé um að ræða raunhæfar tölur. Vegamálastjóri velkist þó ekki í vafa um að kostnaðaráætlun Vegagerðinnar sé raunhæf og stendur fyllilega við hana. Sumum er þó nákvæmlega sama hvort göng til Eyja kosti 16 eða 30 milljarða og hafa mun meiri áhyggjur af því hversu örugg þau yrðu. Göngin yrðu með þeim lengstu í veröldinni og einnig í nágrenni við eldvirkt svæði, þótt ekki sé talið að þau muni liggja í gegnum eldstöð. Vegamálastjóri segir að þótt fólki finnist þetta mikið og stórt gat þá sé þetta eins og að stinga títiprjón í vegg miðað við bergmassann sem þarna er.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×