Innlent

Mótmæla veru Mjallar Friggjar

Fjórir eigendur fyrirtækja í Vesturvör 30b í Kópavogi hafa afhent bæjaryfirvöldum skrifleg mótmæli vegna klórframleiðslu Mjallar Friggjar í húsinu á móti. Í bréfi eigandanna til bæjaryfirvalda stendur: "Við eigendurnir að Vesturvör 30b í Kópavogi lýsum andstöðu okkar á að eigendur í Vesturvör 30c geti verið með efnaverksmiðju í okkar nálægð." Eyjólfur Bergþórsson, einn eigendanna fjögurra að Vesturvör 30b, segir þá ekkert hafa á móti fyrirtækinu sem slíku. Þeir lýsi þó furðu sinni á því að Mjöll Frigg fái óáreitt að starfrækja efnaverksmiðju á staðnum. Eigandi Mjallar Friggjar hefur sótt um bráðabirgðaleyfi til umhverfisráðuneytisins til klórframleiðslu næstu sex mánuðina. Umhverfisráðuneytið bíður upplýsinga frá Umhverfisstofnun og Heilbrigðiseftirliti Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis. Eyjólfur segir ekki hvarfla að sér að fyrirtækinu verði leyft að vera með efnablöndun á svæðinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×