Sport

Fá endurgreitt, takk!

Það verður mikið um dýrðir í smábænum Exeter í kvöld þegar heimaliðið, Exeter City, tekur á móti Manchester United í ensku bikarkeppninni í knattspyrnu. Í fyrri leik liðanna komu leikmenn Exeter andstæðingum sínum í opna skjöldu með mikilli baráttu og náðu þeim merka áfanga að ná jafntefli við stórliðið Manchester United. Roy Keane, fyrirliði United, fullyrti að hefði hann borgað sig inn á fyrri leik liðanna, þá hefði hann heimtað að fá endurgreitt. "Það urðu allir fyrir miklum vonbrigðum með leikinn gegn Exeter og ég er mjög glaður yfir því að hafa ekki þurft að borga mig inn. Eina sárabótin sem ég get boðið er að við munum leiðrétta mistökin í kvöld og vonandi verða önnur gæði af fótbolta en við buðum upp á í síðustu viðureign liðanna," sagði Keane. Fregnir herma að Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, muni tefla fram sínu sterkasta liði til að fullvissa sig um að mesta áfall í sögu liðsins líti ekki dagsins ljós.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×