Sport

Vongóð en ekkert fast í hendi

"Það er ekkert fast í hendi eins og staðan er en ég er mjög bjartsýn á að hljóta þann stuðning sem ég þarf til að láta allt ganga upp," segir Ólöf María Jónsdóttir, kylfingur úr Keili. Hún er í óða önn að skipuleggja sumarið framundan en þá tekur hún, fyrst Íslendinga, þátt á evrópsku mótaröðinni í golfi. Ólöf leggur nú hart að sér við undirbúning undir þann draum sem hún hefur gengið með um langa hríð, þátttöku meðal fremstu kvenkylfinga Evrópu, á allt að fimmtán mismunandi mótum víðsvegar í álfunni í vor og sumar. Hún leggur stund á æfingar alla liðlanga daga og ætlar sér að vera í besta formi lífs síns þegar fyrsta mót hennar hefst á Kanaríeyjum í apríl næstkomandi. "Þetta er tækifæri sem kemur ekki á hverjum degi og ég skulda sjálfri mér að leggja mig eins mikið fram og ég mögulega get. Eins og staðan er í dag þá tek ég líklega þátt í fimmtán mótum sem öll fara fram í Evrópu og stærst þeirra verður Opna breska meistaramótið. Þar er reyndar inntökukeppni en ég er bjartsýn." Þátttaka á mótaröðinni er ekki ókeypis. Keppendur þurfa að greiða öll ferðalög og uppihald úr eigin vasa og segir Ólöf að það hafi áhrif á hvaða mót hún tekur þátt í og hver ekki. "Ég mun að líkindum fá stuðning frá nokkrum fyrirtækjum heimafyrir og að auki á ég í viðræðum við erlent fyrirtæki um styrk. Þeir koma sér afar vel en þrátt fyrir það er ég einnig að vonast til að fá styrk frá Íþróttasambandi Íslands enda munar um allt fé og slíkir styrkir eru allt að því lífsnauðsyn ef ég ætla að einbeita mér að golfinu og ekki eyða tíma og orku í að hafa áhyggjur af peningum.. Auðvitað er mikið verðlaunafé í boði á þessum mótum en því má ekki gleyma að samkeppnin er afar hörð og ekki þýðir að ganga út frá því sem vísu að ég muni hala inn miklum peningum." Sú staðreynd að Ólöf er fyrsti Íslendingurinn til að komast á mótaröðina segir hún að hafi valdið mörgum heilabrotum. "Það er með ólíkindum hversu margir hafa furðað sig á að íslensk stelpa sé að taka þátt í mótum sem þessum. Jafnvel blaðamenn hafa spurt út í þetta og enginn trúir því að á Íslandi séu 60 eða 70 golfvellir. Það þykir mér fyndið og þetta getur jafnvel aukið vonir um að koma á óvart þegar keppni hefst."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×