Innlent

Stuðla að betra málfari

Ekki segja „ókei“, heldur allt í lagi, ekki segja „bæ, bæ“, heldur „veriði bless“. Þetta er meðal þess sem Pétur Pétursson þulur og Eyjólfur Jónsson sundkappi, ásamt fleirum, ræddu við börnin á Barónsborg í dag. Það er kunnara en frá þurfi að segja að íslensk tunga er Pétri hugleikin og fékk hann því félaga sinn Eyjólf, Þorgerði Ingólfsdóttur kórstjóra og Helgu Steffensen og brúðuleikhúsið hennar til að fjallað um íslenskt mál við börnin á Barónsborg við Barónsstíg. Það var sungið og spjallað og leikið brúðuleikhús. Meðal þess sem áhersla var lögð á var að kenna börnunum að hætta að segja „ókei“ og „bæ, bæ“, en þess í stað „allt í lagi“, „komdu sæll“ og „vertu sæll“. Pétur er þó ekki viss um að „ókei“ og „bæ, bæ“ sé horfið úr málinu hjá börnunum, enda Róm ekki byggð á einum degi og íslenskt móðurmál ekki endurbætt á jafnskömmum tíma. „En andófið verður að vera,“ segir Pétur. Þessi hópur ætlar víðar, í fleiri leikskóla, áður en Eyjólfur heldur til síns heima en hann býr nú í Ástralíu. Í framhaldinu vona þeir að einhver taki við keflinu. Það er kannski ástæða fyrir smá bjartsýni í þessum efnum því Eyjólfur segir að þegar hann var strákur í Þrótti og var að spila fótbolta við bresku hermennina skildu strákarnir ekki þetta „ókei“ sem Bretarnir voru alltaf að segja svo þeir kenndu hermönnunum að segja „allt í lagi“. Þannig að ef hægt er að koma því inn í ensku hlýtur að vera hægt að losa íslenskuna við „ókei“.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×