Innlent

Of feitum börnum fjölgar ekki

Of feitum börnum fjölgar ekki á Íslandi, öfugt við þá þróun sem margir telja að eigi sér stað. Samkvæmt nýrri íslenskri rannsókn virðist sem tekist hafi að sporna við henni. Eitt til tvö af hverjum tíu skólabörnum eru of þung og er það svipað og annars staðar á Norðurlöndum. Þyngd barna jókst mjög hratt fram eftir síðustu öld en fyrir um tíu árum tókst að stöðva þessa þróun. Ný rannsókn sýnir að íslensk börn þyngjast að meðaltali ekki lengur. Sumir hópar hafa jafnvel lést. Undantekningin er þó að fleiri fjögurra ára drengir eru of þungir en á móti kemur að of þungum fjögurra ára stúlkum hefur fækkað. Í eldri aldurshópum hefur lítil marktæk breyting orðið á þyngd. Guðrún Kristjánsdóttir, prófessor í hjúkrunarfræði, segir að ákveðinn stöðugleiki hafi náðst á síðustu tíu árum en það þýði þó ekki að sitja megi með hendur í skauti. Hafa þurfi áhyggjur af þyngd barna áfram, ekki bara af því að þau séu of þung heldur líka sum hver kunni að vera of létt. Huga þurfi í heild að næringarstöðu barna. Ástæður þess að hröð þyngdaraukning barna stöðvaðist eru meðal annars áróður og aukin meðvitund um heilbrigði. Guðrún segir heilsræktarbylgju sem barst hingað eins og annað hafa haft sitt að segja og auk þess hafi Latibær haft áhrif. Guðrún tekur þó skýrt fram að áfram verði að halda vöku sinni varðandi þyngd barna og koma þeim í betra ástand, enn séu of mörg þeirra of þung.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×