Innlent

Nota mætti Símafé í sjúkrahús

Nota mætti þá fjármuni sem ríkið fær við sölu Símans til að reisa fullkomið sjúkrahús. Hugmyndinni varpaði Davíð Oddsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, fram og lét að því liggja að hugmyndinni hefði verið sprautað í æðar sér þegar hann gekkst undir sjúkrahúsmeðferð á síðasta ári. Þingmenn Samfylkingarinnar sjá ástæðu til að fagna. Sjálfstæðimenn fjölmenntu á stjórnmálafund sem fram fór í Valhöll í dag og hlýddu á formanninn, Davíð Oddsson utanríkisráðherra, ræða um þjóðmálin. Í svari við fyrirspurn um fjármál spítalanna sagði Davíð að ef miklir fjármunir fáist fyrir Símann væri freistandi að greiða niður skuldir. Tækifæri fengist þó til að veita mikla fjármuni í eina átt eins og byggingu fullkomins sjúkrahúss. Það væri mikið átak og hann teldi mjög erfitt að gera það svo vit væri í gegnum venjuleg fjárlög ár frá ári með tilheyrandi frestunum og kostnaði. „Því ekki að nota lungann af slíkri sölu í ákvörðun af þessu tagi?“ spurði Davíð og bætti við að það gæti vel verið að starfsfólk Landspítalans hefði sprautað þessari hugmynd í æð honum þegar hann hefði verið þar vegna veikinda sinna. Kristján Möller, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði í yfirlýsingu sem barst fjölmiðlum í dag að hann fagnaði stuðningi Davíðs við tillögu sem hann og fleiri þingmenn Samfylkingarinnar hefðu flutt. Hún fjallaði um byggingu nýs Landspítala og lagt var til að þeir peningar sem fást fyrir sölu ríkiseigna, til dæmis Símans, yrðu notaðir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×