Erlent

Svíar á lífi sagðir látnir

Fjöldi Svía, sem sagður var látinn í hamförunum í Asíu, er á lífi. Listi stjórnvalda reyndist kolrangur. Hið sænska Aftonbladet greinir frá þessu í dag. Þá er sænska lögreglan harðlega gagnrýnd fyrir slök vinnubrögð. Athyglin hefur beinst mjög að Svíþjóð undanfarið enda er mjög stór hluti þeirra erlendu ríkisborgara, sem saknað er, þaðan. Í upphafi töldu Svíar hættu á að mörg þúsund sænskir ferðamenn hefðu farist í Taílandi, en sem stendur er opinber fjöldi þeirra fimmtíu og tveir, samkvæmt lista sænskra stjórnvalda. Sexhundruð þrjátíu og sjö eru á lista yfir þá sem saknað er og taldir eru af. Sænska Aftonblaðið greinir frá því í dag, að ekki færri en níu hinna „látnu“ séu sprelllifandi. Upprisa þeirra er hins vegar ekkert kraftaverk heldur er orsökin skrifræðisklúður í Stokkhólmi. Yfirvöld munu í allmörgum tilfellum ekki hafa haft samband við ættingja þeirra sem saknað var og talið að ekki væru á lífi, en ættingjarnir hefðu í mörgum tilfellum getað upplýst að allt væri í lagi. Sænska ríkislögreglan er gagnrýnd fyrir slæleg vinnubrögð en Ann-Marie Begler hjá lögreglunni vísar gagnrýninni á bug í viðtali við Aftonbladet og segir unnið dag og nótt að því að tryggja að réttar upplýsingar séu á listunum. Í hinu sænska Dagbladet segir að vandann megi rekja til utanríkisráðuneytisins, sem haldið hafi utan um skráningu þeirra sem saknað var í upphafi. Lögreglan hafi einnig skráð fólk og þar hafi tvískráning og margskráning valdið því að talan varð himinhá. Nú sjái lögreglan ein um að halda lista og hafi til þess öflugan, sérhannaðan hugbúnað sem sé meginástæða þess að þeim sem saknað er hefur fækkað um 290 á undanförnum dögum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×