Innlent

Taka ruslið með heim til sparnaðar

Börn í nokkrum skólum Reykjavíkur eru látin taka ruslið með sér heim til að spara skólunum fé. Ætlunin er einnig að gera börnin meðvituð um umhverfismál. Reykjavíkurborg hætti nú um áramótin sorphirðu við stofnanir og fær hver þeirra fé í staðinn til að greiða fyrir eigin sorphirðu. Um leið reyna grunnskólarnir að draga úr sorpi, til dæmis með aukinni flokkun. Nemendur í Melaskóla pakka nestisafgöngum sínum niður í tösku og fara með ruslið heim. Ragna Ólafsdóttir, skólastjóri Melaskóla, segir mestmegnis um að ræða einnota umbúðir sem draga megi úr. Þetta skapi kannski umræður á heimilinu og foreldrar geti fylgst með hvað af nestinu börnin þeirra borði. Hún veit til þess að í sumum grunnskólum sé mælst til þess að börn komi ekki með drykki í fernum heldur einhvers konar fjölnota umbúðum. Hið sama er í bígerð í fleiri skólum. Og þó þetta sé liður í betri umhverfisstefnu er tilgangurinn líka að spara fé. Ragna segir að um leið og umhverfisvitund starfsmanna og nemenda sé aukin verði þau meðvituð um það sem þau hendi og smám saman auki það sparnaðinn. Nokkrir foreldrar hafa gert athugasemdir við þetta og spyrja hvort það sé eitthvað umhverfisvænna að henda ruslinu á heimilinu en í skólanum. Ragna svarar því á þá leið að reynt hafi verið að ræða málin sem lið í aukinni umhvefisvernd og umhverfisvitund.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×