Innlent

Miltisbrandsjörð enn ógirt

Miltisbrandssýkta bújörðin Sjónarhóll á Vatnsleysuströnd er enn ógirt þrátt fyrir smithættu. Mánuður er nú liðinn frá því þrjú hross drápust vegna eitrunar á jörðinni og talið var brýnt að girða svæðið af og merkja sem hættusvæði. Þegar hræin af hrossunum voru brennd við Sjónarhól þótti ekki ráðlegt að hrófla frekar við jarðveginum vegna smithættu og ákveðið var að girða svæðið af  með 700 metra rammgerðri gaddavírsgirðingu og merkja sem hættusvæði. Guðmundur Örn Guðmundsson héraðsdýralæknir sagði í fréttum Stöðvar 2 fyrir réttum mánuði að allar girðingar væru ónýtar og gera yrði ráðstafanir til að bæta það. Nágrannar Sjónarhóls fengu þau tilmæli að halda búfénaði inni þar til búið væri að girða en dagar og vikur hafa liðið án þess að nokkuð hafi verið aðhafst. Ástand girðinga sem fyrir voru hefur frekar versnað í fannferginu. Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra segist nú hafa heimildir fyrir því að svæðið verði girt af á allra næstu dögum. Drátturinn er útskýrður á þann veg að jól hafi verið haldin hátíðleg og að leita hafi átt sátta við eigendur jarðarinnar vegna girðingarstæðis. Guðni segir að svæðið sé hættusvæði og fara beri með það sem slíkt. Eigendum hljóti að vera það mikil mál að ekki hljótist fleiri slys af og að þarna verði farið með varúð um sinn. Guðni segir aðspurður að það sé skylda og réttur ráðuneytis hans að jörðin verði girt. Embætti yfirdýralæknis hefur tilefni til að ætla að á um hundrað stöðum um land allt sé militisbrandur í jörðu. Talið er þörf á að kortleggja þá enda er hætta á smiti ef vegir verða lagðir á þessum stöðum eða hús byggð. Ráðherra tekur undir það sjónarmið þrátt fyrir óánægju þeirra landeigenda sem óttast að jarðir falli í verði ef þær rata inn á slíkt kort. Hann segist skilja þann ótta en þetta sé ógnvænlegur sjúkdómur og það geti verið jarðeigendunum mikilvægt að miltisbrandssýktar grafir séu merktar og friðlýstar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×