Erlent

Sagðir nota neyðarhjálp sem vopn

Neyð fórnarlamba flóðbylgjunnar í Asíu er notuð sem vopn í höndum skæruliða og uppreisnarmanna og stjórnvalda sem berjast við þá. Ásakanir um að neyðarbirgðum sé ekki beint á óvinasvæði ganga á víxl. Fyrstu dagana bárust meðal annars af því fréttir að stjórnvöld á Srí Lanka og uppreisnarmenn Tamíla þar hefðu tekið höndum saman um viðbrögð við hamförunum. En nú er annað upp á teningnum og það ber mannlegu eðli ekki fagurt vitni. Tamílar segja stjórnvöld þar nota neyðarhjálp sem vopn í baráttunni. Fórnarlömb flóðbylgjunnar á svæðum á valdi Tamíla fái ekki sömu hjálp og aðrir. Colin Powell, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, kynnti sér ástandið á Srí Lanka í dag og spurði stjórnvöld um þetta. „Ég hef ekki haft neitt samband við Tamíl-tígrana. Stjórnvöld hafa tjá mér að hjálp berist til norðurhluta landsins sem er undir stjórn tígranna. Stjórnvöld telja að svæði Tamíla fá að minnsta kosti jafnmikla hjálp og önnur og við verðum að sjá síðar hvernig það stemmir. Ég veit að hjálp best þangað en hef ekki rætt við neinn úr röðum frelsissveita Tamíl-tígra,“ sagði Powell.  Í Indónesíu, í Banda Aceh héraði, hefur einnig verið barist lengi og uppreisnarmenn þar bera stjórnvöld sömu sökum. Hersveitum stjórnvalda á að hafa lent saman við uppreisnarmenn auk þess sem íslamskir öfgamenn tengdir al-Qaida eru sagðir amast við því að vestrænar hersveitir séu í nánd við hjálparstarfið. Talsmenn segja þetta af og frá. Salman al-Frizi, leiðtogi Laska Mujahidin, segir að þeir séu ekki hlutdrægir. Þangað hafi komið fleiri en Bandaríkjamenn, t.d. Ástralar, Malasar og Singapúrar. Fleiri þjóðir geti komið ef tilgangur þeirra sé að hjálpa í nafni mannúðar. Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, var á ferð um Banda Aceh í dag og sagðist aldrei hafa séð aðrar eins skemmdir. Á ferð yfir hamfarasvæðin velti hann því fyrir sér hvar allt fólkið, sem bjó þar áður væri, því á jörðu niðri var ekki sálu að sjá, bara rústir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×