Innlent

Allir komnir heim

26 íbúar við Traðarland, Dísarland, á Geirsstöðum og Tröð fengu að fara heim til sín eftir að hættuástandi var aflétt í Bolungarvík í hádeginu í gær. Einar Pétursson bæjarstjóri segir enn vera viðbúnaðarstig og að grannt verði fylgst með veðurspám. 66 íbúar fengu að fara til síns heim í fyrradag. Einar segir norðaustanátt í fyrrinótt hafa blásið mestu af snjónum úr fjallinu. Viðbúnaðarstig verður áfram þar sem margt getur breyst á stuttum tíma. Hann segir mikinn létti vera bæði hjá íbúum og bæjaryfirvöldum. Í deiglunni er að gera snjóflóðavarnargarð í fjallinu en ekki er ákveðið hvenær framkvæmdin hefst, að sögn Einars. Margrét Gunnarsdóttir, íbúi við Dísarland, var alsæl yfir því að komast loksins heim. Hún var ein þeirra sem ekki vildi yfirgefa heimili sitt í fyrstu þegar þurfti að rýma hús við Dísarland á mánudag. "Mér fannst engin ástæða til að fara þar sem skóf úr fjallinu. Eins voru þetta mótmæli vegna seinagangs í okkar málum. Ekki er enn búið að kaupa af okkur húsin eins og til stóð," segir Margrét. Hún segir bæjarsjóð hafa stefnt íbúum Dísarlands þar sem þeir vildu ekki selja sjóðnum húsin á því verði sem þeim var boðið. En húsin eru á því svæði sem varnargarðurinn á að standa. Margrét er skrifstofumaður á bæjarskrifstofunni og segir það ekki fara mjög vel með málaferlunum. Hún hefur áhuga á að búa áfram í Bolungarvík þar sem hún hefur búið mest alla tíð. Þar hafa hún og maðurinn hennar vinnu og engin ástæða til að flytja annað. "Verðið verður að vera boðlegt svo ég og fjölskylda mín getum eignast annað heimili," segir Margrét. Hún segist jafnvel þurfa að rýma húsið aftur í vetur svo lengi sem enn sé snjór.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×