Innlent

Staðan verri nú en við síðustu samninga

Ari Edwald, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að grafalvarleg staða komi upp nái forsendunefnd kjarasamninga ekki saman fyrir 15. nóvember. Í forsendunefnd eiga sæti tveir fulltrúar SA og tveir fulltrúar Alþýðusambands Íslands sem hafa það verkefni að meta forsendur kjarasamninganna og hvort þær hafi staðist.

"Það er sameiginleg niðurstaða okkar að þær hafi ekki staðist og það gefi tilefni til þess að við metum hver viðbrögðin eiga að vera. Ef við náum saman um viðbrögð halda samningarnir en ef við náum ekki saman verðum við að skýra frá því fyrir 15. nóvember," segir Ari.

Ef forsendunefndin kemst ekki að niðurstöðu um viðbrögð við breyttum forsendum samninganna, sem fyrst og fremst felast í hærri verðbólgu en gert var ráð fyrir, verður það í valdi stéttarfélaganna sem að samningunum standa hvað gert skuli í framhaldinu.

Í samningnum er gert ráð fyrir að segja megi þeim upp en það verður að gerast fyrir 10. desember eigi uppsagnirnar að taka gildi fyrir áramót. "Ef samningum verður sagt upp koma ekki til framkvæmda þær samningsbundnu launahækkanir sem taka áttu gildi um áramót," segir Ari. "Þær hljóða upp á 2,5 prósenta hækkun sem samið var um í ársbyrjun 2004, en auk þeirra eru ýmsar taxtabreytingar sem taldar eru fela í sér eins prósents kostnaðaraukningu fyrir atvinnulífið þannig að alls nemur hækkunin samtals 3,5 prósentum fyrir atvinnulífið," segir Ari.

Hann bendir á að auk þessara samninga hafi síðan verið gerðir margir aðrir samningar sem gildi til 2008 og feli í sér þriggja prósenta hækkun um áramótin. Auk samningsbundinna launahækkana mun tekjuskattur lækka um eitt prósent og segir Ari að kaupmáttur launa sé því væntanlega að hækka um fjögur til 4,5 prósent um áramót. "Þessar hækkanir myndu ekki koma til framkvæmda ef samningum yrði sagt upp," segir hann. Hann segir engum blöðum um það að fletta að skilyrði í atvinnulífinu hafi snarversnað á samningstímabilinu en hins vegar hafi kjör launafólks batnað með auknum kaupmætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×