Innlent

Lokað á hjartadeild vegna bakteríu

Loka varð hluta hjartadeildarinnar á Landspítala - háskólasjúkrahúsi vegna sýkingarbakteríu sem fannst á deildinni í síðustu viku. Hún barst með sjúklingi sem var að koma af sjúkrahúsi í útlöndum og og var lagður inn á Landspítalann. Enn er ein stofa lokuð. "Þetta er sjúkrahúsbaktería sem við erum að berjast við með kjafti og klóm." sagði Guðmundur Þorgeirsson, sviðstjóri á lyflækningasviði Landspítalans. "Hún er landlæg á sjúkrahúsum erlendis." Loka þurfti 3 til 4 stofum að sögn Guðmundar. Þá var dagdeild á þriðju hæð opnuð að hluta sem sólarhringslegudeild. "Við höfum úr svo litlu að spila," sagði Guðmundur. "Við erum alltaf með yfirfulla deild. Þegar svona uppákomur berja að dyrum lendum við strax í vandræðum. Vandamálið er hins vegar nánast að baki því engin útbreiðsla varð á bakteríunni til sjúklinga eða starfsfólks." Sjúkrahúsbakterían er svokölluð Mosa-baktería, en það afbrigði er ónæmt fyrir venjulegum sýklalyfjum. "Hún getur verið þannig að hún valdi engri sýkingu, en hún getur líka valdið slæmri sýkingu við vissar aðstæður," sagði Guðmundur. "Það þarf að nota margfalt dýrari sýklalyf til að koma henni fyrir kattarnef eða þá að eiga á hættu alvarlegar sýkingar af hennar völdum. Þessi baktería ógnar ekki sjúklingunum, fremur en margar aðrar bakteríur í umhverfinu. En ef sjúklingur kemur af sjúkrahúsi í útlöndum er hann settur beint í einangrun hér, þar til menn hafa sannfært sig um að hann sé ekki með bakteríuna. Mörg lönd hafa fellt niður sínar varnargirðingar og sætta sig við að hún sé hluti af sjúkrahúsflórunni. Við erum ánægðir með að við höfum haldið þessari víglínu."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×