Erlent

Flýja öfund út í meint auðæfi

Foreldrar barns númer áttatíu og eitt, sem bjargaðist á undraverðan hátt úr flóðbylgjunni miklu á Srí Lanka, eiga erfitt, því að fólk heldur að þeir séu svo ríkir.

Abilass Jeyjaradja vann hugi og hjörtu heimsbyggðarinnar þegar hann fannst á lífi, tveggja mánaða gamall, eftir flóðbylgjuna sem kostaði yfir 170 þúsund manns lífið, 26. desember síðastliðinn.

Hann var fluttur á sjúkrahús, þar sem hann fékk nafnið Barn 81. Níu foreldrar gerðu tilkall til hans og forræði yfir honum varð mikið hita- og tilfinningamál. Foreldrar hans lentu í harðvítugum deilum við sjúkrahúsið, og fengu hann ekki afhentan fyrr en eftir sjö vikur, þegar DNA prufur sýndu að hann var þeirra barn.

Ógæfa fjölskyldunnar, í dag, felst í því að ABC sjónvarpsstöðin bauð fjölskyldunni til New York, þar sem þau komu fram í sjónvarpsþættinum Good Morning America.

ABC borgaði fyrir þau ferðir og uppihald og lagði þeim til lúxusbifreið til að skoða sig um í New York.

Fljótlega eftir heimkomuna fór að bera á öfund nágranna, sem töldu víst að fjölskyldan væri orðin rík af öllu umstanginu.

Foreldrar Abilass gáfust loks upp á svívirðingum og jafnvel líkamsárásum, fólks sem öfundaðist yfir meintu ríkidæmi þeirra.

Þau fluttu því í annað þorp, þar sem þau leigðu sér víggirt hús. En íbúarnir í því þorpi vita nú hver þau eru, og þeir eru líka orðnir öfundsjúkir yfir hinum meintu auðæfum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×