Erlent

Atkvæðagreiðslan hafin

mynd/ap

Atkvæðagreiðsla í sögulegum þingkosningum í Írak hefst í dag. Stjórnvöld í Írak hafa gripið til víðtækra öryggisaðgerða í aðdraganda kosninganna, þar sem óttast er að uppreisnarmenn geri fjölmargar árásir.

Hermenn, lögreglumenn, sjúklingar á spítölum og fangar sem bíða dóms geta kosið í dag. Á morgun verða svo greidd atkvæði utan kjörstaða í öðrum löndum en Írak, en aðalkosningadagurinn er á fimmtudaginn. Íröksk stjórnvöld ætla að loka öllum landamærum og setja útgöngubann á ákveðnum stöðum í landinu frá og með morgundeginum. Þá verður einnig sett ferðabann á ákveðnum svæðum. Gripið er til þessara aðgerða til að auka öryggi í aðdraganda kosninganna, enda óttast stjórnvöld mjög að uppreisnarmenn geri hrinu árása á næstu dögunum.

Uppreisnarmenn á vegum al-Kæda hafa ítrekað hótað mörgum frambjóðendum lífláti undanfarna daga.

Stjórnvöld í Írak gera sér þó vonir um að kosningarnar heppnist vel. Flest bendir til að þátttaka meðal Súnníta verði mun betri nú en í kosningunum í janúar, þegar þeir sniðgengu kosningarnar. Stjórnmálaskýrendur eru á einu máli um að góð þátttaka súnníta sé lykilatriði. Með því myndu þeir ná sínum mönnum inn á þing og þar með myndi hugsanlega skapast meiri eining um stjórnvöld í Írak.

Og íbúar í Írak eru bjartsýnir miðað við nýjustu skoðanakannanir. Samkvæmt nýrri könnun sem gerð var fyrir BBC eru meira en sjötíu prósent Íraka ánægðir með líf sitt og tveir þriðju aðspurðra telja að líf þeirra eigi eftir að batna næsta árið. Þá segjast sjötíu prósent aðspurðra sannfærðir um að ástandið í landinu fari batnandi og verði betra eftir ár en það er nú.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×