Innlent

Vill þyrma þrem húsum við Laugaveg

Borgarminjavörður vill þyrma þremur gömlum húsum við Laugaveg af þeim 25 sem borgaryfirvöld hafa leyft að verði rifin. Meðal vegfarenda um Laugaveg voru mjög skiptar skoðanir. Kofarnir mega fjúka, sögðu sumir, á meðan aðrir gráta gamlar minjar. Yfirvöld í Reykjavík hafa leyft niðurrif 25 húsa við Laugaveg sem öll eru byggð fyrir 1918. Ný hús eiga að rísa sem fyrst. Guðný G. Gunnarsdóttir borgarminjavörður er ekki sátt við að þrjú hús af þessum 25 verði rifin. Allt eru það hornhús sem varðveita götumyndina á götuhornum. Guðný segir að að hornhúsin séu mjög vegleg og á síðustu öld hafi þróast sérstakur húsagerðarstíll á hornum. Hornhúsin hafi verið skrautlegri og íburðarmeiri sum hver og til þess að halda einkennum og yfirbragði byggðarinnar séu þau mjög mikilvæg. Húsin sem Guðný vill varðveita eru Laugavegur 11 og 33 ásamt Laugavegi 21, en það er kaldhæðnislegt til þess að hugsa að það eru aðeins örfá ár síðan borgaryfirvöld vörðu nokkrum milljónum í að gera það síðastnefnda upp. Málið er ekki í höfn. Þar sem húsin eru svo gömul þarf umsögn húsafriðunarnefndar og borgarminjavarðar áður en þau verða rifin og auðvitað þarf vilji eigenda þeirra að standa til þess. En hvað skyldi vegfarendum á Laugavegi finnast um þessar fyrirætlanir? Sumum fannst það hreint og beint sorglegt vegna þess að sjarmi væri af þeim en aðrir sögðu það í góðu lagi þar sem mörg þeirra væru kofar sem mættu missa sín. Einn benti á það færi eftir því hvað kæmi í staðinn og annar sagði að ef vel væri að málum staðið væri niðurrifið hið besta mál.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×