Erlent

Reynt að draga úr spennu í Líbanon

Spenna magnast í Beirút í Líbanon. Bílsprengja sprakk þar í nótt og forseti landsins notaði tækifærið í morgun til að hvetja stjórn og stjórnarandstöðu til að ræða málin og ná samkomulagi sín á milli áður en allt fer úr böndunum. Bílsprengjan sprakk í hverfi kristinna í austurhluta Beirút og særði ellefu. Sprengjan reif í sundur jörðina og rústaði neðstu hæðum íbúðarblokkar þar sem svalir hrundu og gluggar splundruðust. Tugir bíla skemmdust í sprengingunni. Enginn hefur lýst tilræðinu á hendur sér en stjórnarandstæðingar voru fljótir að kenna stuðningsmönnum Sýrlandsstjórnar um verknaðinn á þeirri forsendu að þeir svífist einskis til að kynda undir ólgu í þeim tilgangi að réttlæta veru sýrlenska hersins í Líbanon. Bílsprengjan í nótt minnir fólk óþægilega á fyrri tíma en bílsprengjur voru nánast daglegt brauð í borgarastyrjöldinni sem geisaði í Líbanon frá 1975 til 1990. Íbúar Líbanon mega ekki til þess hugsa að snúa aftur til þess ófremdarástands. Emile Lahoud, forseti Sýrlands, hvatti menn í morgun til að slíðra sverðin og bauð öllum stjórnmálaflokkum landsins til neyðarviðræðna til að höggva hnútinn. Einn af helstu leiðtogum stjórnarandstöðunnar, Drúsaleiðtoginn Walid Jumblatt, hefur hins vegar ekki tekið sérstaklega vel í þetta sáttaboð Lahouds og ítrekar þá kröfu að hann segi af sér.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×