Erlent

Tölvuþrjótar reyna bankarán

Breska lögreglan kom upp um tilraun tölvuþrjóta til að stela andvirði mörg hundruð milljóna króna af reikningum japansks banka í Lundúnum, að því er greint var frá á fimmtudag. Aðferðin sem beitt var við þjófnaðartilraunina var að sögn sú, að þrjótarnir brutust inn í tölvukerfi bankans og gátu þannig safnað upplýsingum um bankareikninga með tilheyrandi aðgangs- og lykilorðum. Lögregla í Ísrael handtók á miðvikudag mann, í samstarfi við breska kollega sína, sem grunaður er um að hafa með þessum aðferðum reynt að ræna háum upphæðum af reikningum Sumitomo Mitsui-bankans. Lögregla í Lundúnum staðfesti að gerð hefði verið "misheppnuð þjófnaðartilraun" í fyrra í Lundúnaútibúi Sumitomo Mitsui, en vildi ekki gefa upp hve háar upphæðir hefði verið um að tefla né hvaða aðferðum var beitt. Talsmenn bankans staðfestu einnig að tilraun til þjófnaðar hefði verið gerð, en sögðu ekkert nánar um aðferðina. Í fréttatilkynningu ísraelsku lögreglunnar segir, að hinn handtekni - 32 ára gamall ísraelskur ríkisborgari - væri grunaður um að hafa reynt að "þvo" 20 milljónir evra, andvirði um 160 milljóna króna. Hátækniglæpadeild bresku lögreglunnar hóf rannsókn í október í fyrra, eftir að tölvuþrjótar brutust inn í tölvukerfi Sumitomo-bankans í Lundúnum. Þeir reyndu að millifæra 219 milljónir evra, um 17,5 milljarða króna, af reikningum bankans á tíu reikninga í bönkum víðs vegar um heim, en handtekni Ísraelinn kvað vera skráður fyrir einum þessara reikninga. Samkvæmt heimildum breska blaðsins Financial Times reyndu þjófarnir að ræna 220 milljónum sterlingspunda, hátt í 25 milljörðum króna af reikningum japanska bankans. Að sögn blaðsins notuðu tölvuþrjótarnir laumuforrit sem gerði þeim kleift að fylgjast með öllu því sem sem notendur netbankaþjónustu bankans slógu inn á lyklaborðið hjá sér. Þannig gátu þeir komist yfir upplýsingar um reikningsnúmer, aðgangsorð og aðrar viðkvæmar upplýsingar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×