Erlent

Tsjúbajs sýnt banatilræði

Anatolí Tsjúbajs, yfirmaður rússnesku rafmagnsveitnanna, lifði af banatilræði sem honum var sýnt í Moskvu á fimmtudag. Tilræðismennirnir sprengdu öfluga sprengju og skutu síðan á bíl Tsjúbajs á leið hans til vinnu. Tilræðið eyddi þeirri tálsýn að stöðugleiki væri að nást í viðskiptaumhverfinu í Rússlandi. Fyrrverandi liðsforingi í hernum var yfirheyrður í gær, grunaður um aðild að tilræðinu. Embættismenn létu hafa eftir sér að hugsanlega hefðu tilræðismennirnir ekki ætlað sér að ráða Tsjúabajs af dögum, heldur aðeins skjóta honum skelk í bringu. Tsjúbajs, sem komst ómeiddur úr tilræðinu, sagðist hafa átt von á að óvinir sínir reyndu eitthvað slíkt. Hann vissi hverjir hefðu staðið á bak við það, en vildi ekki gefa upp nein nöfn. Tsjúbajs var aðalhöfundurinn að því kerfi sem beitt var við einkavæðingu þjóðnýttra fyrirtækja í Rússlandi fyrst eftir lok sovéttímans fyrir rúmum áratug. Það kerfi hefur sætt harðri gagnrýni fyrir að hafa komið verðmætustu eigum ríkisins í hendur vel valinna einstaklinga - viðskiptajöfra með góð tengsl við ráðamenn - á spottprís.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×