Erlent

Geispi tengist fullnægingu

Menn taka sér ótrúlegustu hluti fyrir hendur, eins og til dæmis Hollendingurinn Wolter Seuntjens. Hann komst að þeirri niðurstöðu að geispinn væri óeðlilega lítið rannsakað fyrirbæri og ákvað að bæta þar úr. Niðurstöður hans eru kynæsandi. Af hverju geispum við? Merkilegt nokk er það ein niðurstaða lærðrar úttektar Wolters Seuntjens að engin skýring liggi fyrir af hverju við galopnum þverrifuna og öndum djúpt. Seuntjens las allt sem hann fann um geispa í hvaða samhengi sem er: málvísindalegu samhengi, félagsfræðilegu, sálfræðilegu, læknisfræðilegu - og hann leit meira að segja á listrænu hliðar geispans. Afraksturinn var mikil úttekt sem ber nafnið „Leyndardómar kynferðis mannlegs geispa“. Hananú. Seuntjens komst að því að geispinn tengist oft og tíðum fullnægingarlegum kenndum. Hann fann óvéfengjanlegar vísbendingar um þetta í fornum, indverskum ritum sem og vestrænum nútímalæknaritum. Hann bendir meira að segja á höfunda sem líkja geispanum við litla fullnægingu. Og þar sem enginn veit hvað veldur geispa, en margur geispar samt við það eitt að heyra minnst á geispa, má gera ráð fyrir að einhver hafi geispað á meðan lestri þessarar fréttar stóð. Og vilji svo til að einhver hafi fundið fyrir fullnægingaráhrifum, má gjarnan láta fréttastofu Bylgjunnar og Stöðvar 2 vita.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×