Innlent

Ríkisstjórnin haldin álæði

Álverið í Straumsvík. Vinstri grænir telja stjórnvöld haldin álæði.
Álverið í Straumsvík. Vinstri grænir telja stjórnvöld haldin álæði.

Steingrímur J. Sigfússon, formaður vinstri grænna, gerði fregnir af hugsanlegum álversframkvæmdum á þremur stöðum á landinu að umtalsefni í upphafi þingfundar í gær. "Í undirbúningi eru að minnsta kosti þrjú álver hér á landi með þátttöku stjórnvalda."

Hann vísaði til fregna um að Umhverfisstofnun hefði úthlutað Alcan í Straumsvík starfsleyfi fyrir 260 þúsund tonna framleiðsluaukningu á ári. Í öðru lagi hefðu landeigendur og Landsvirkjun undirritað samninga um undir­búning virkjana á Norðaustur­landi fyrir allt að 200 þúsund tonna álframleiðslu á ári. Í þriðja lagi væri um að ræða fregnir af samningi milli Norður­áls, Fjárfestingastofunnar og Reykjanes­bæjar um allt að 250 þúsund tonna álver í Helguvík.

"Þetta eru þrjú verkefni sem öll eru í gangi samhliða og gætu öll farið af stað innan eins til þriggja ára." Halldór Ásgrímsson forsætis­ráðherra sagði að öll þessi mál væru á umræðu- og undirbúningsstigi og ekkert nýtt af þeim að frétta. Hann bað vinstri græna um að útiloka ekki fyrirfram eina framleiðslugrein. "Það er alveg eins og þeir vilji bara banna ákveðin trúarbrögð hér á landi. Menn verði bara að hafa eina trú og enginn megi segja neitt annað."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×