Innlent

Skýli yfir rúllubaggastæður

Rúllubaggar eru sjónmengun og skemma ásýnd landsins - því ætti að styrkja bændur til að byggja skýli yfir rúllubaggastæður sínar. Þetta er skoðun formanns Samtaka sauðfjárbænda. Fréttamaður Stöðvar 2 heimsótti bónda sem þótti ekki mikið til hugmyndarinnar koma - en hann vandar sig við að raða böggunum og segir staflana búmannlega. Það er ekki ofsögum sagt að sveitir landsins hafa gjörbreytt um ásýnd á síðustu árum með tilkomu rúllubagganna. Víða, eins og á bænum Hrísbrú í Mosfellsdal, liggja baggarnir í stöflum og blasa við á bæjarhlaðinu. Og það er þetta sem Jóhannes Sigfússon, formaður Landssamtaka sauðfjárbænda, kallar sjónmengun. Fram kemur í Bændablaðinu að hann leggi til að bændur byggi einhverskonar skýli til að fela staflana og fái til þess peningastyrk. Á Hrísbrú eru heyjaðar 800 rúllur. Bóndanum þar, Andrési Ólafssyni, finnst ekki mikið til hugmyndarinnar koma og segir hægt að nota peningana í margt annað. Hann kveðst hugsa um hvernig staflinn kemur til með að líta út þegar hann býr hann til og segist því vanda til verksins. Flestir bændur heyja mun meira en þeir hafa þörf fyrir og því hrúgast upp rúllustæður ár frá ári. Formaður sauðfjárbænda bendir á að ekki megi skipta um glugga í húsi án leyfis skipulagsyfirvalda, en hægt sé að stafla rúllum að vild og breyta þannig ásýnd landsins. Andrés segir það einfaldlega búmannlegt að sjá rúllur út um allt.  



Fleiri fréttir

Sjá meira


×