Lífið

Sjónvarpsþáttaröð ekki í bígerð

Sjónvarpsmyndin Njála verður sýnd í Sjónvarpinu á sunnudagskvöld klukkan 20.00. Myndin, sem vann Edduverðlaunin fyrr í vetur, er gerð er upp úr Njálssögu og segir frá vináttu Gunnars og Njáls og baráttu Gunnars við óvildarmenn sína. Handritshöfundar eru þau Hrefna Haraldsdóttir, Þorgeir Gunnarsson og Björn Brynjólfur Björnsson sem jafnframt er leikstjóri. "Það var frekar óvenjuleg aðferð sem við notuðum til að endurskapa þessa sögu," segir Björn. "Myndin er klukkutíma löng. Hálftími er leikinn hluti úr Njálssögu og hinn hálftíminn er umfjöllun um þennan hluta sögunnar, um persónur og atburði. Þarna er því bæði leikið efni og heimildarmynd." Björn segir það ekki á dagskrá að gera sjónvarpsþáttaröð byggða á Njálu þó svo að hann hefði áhuga á því. "Ef það ætti að taka alla Njálu og búa til þáttaröð myndi það kosta um 800 milljónir. Það er ekki hægt á meðan við höfum enga peninga í sjóð fyrir leikið sjónvarpsefni. Sjóðurinn hefur verið fjárvana síðan hann var stofnaður," segir hann. Að sögn Björns var gerð myndarinnar geysilega skemmtileg. "Þetta var gert við erfiðar aðstæður og fólkið lagði á sig óvenjumikið erfiði. Þar má þakka áhuga fólks á Íslendingasögunum og hvað þær standa okkur nærri." Á meðal leikenda í Njálu eru Ingvar Sigurðsson, Hilmir Snær Guðnason, Margrét Vilhjálmsdóttir, Halldóra Geirharðsdóttir, Bergur Þór Ingólfsson Helgi Björnsson, Benedikt Erlingsson, Pétur Einarsson og Arnar Jónsson.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.