Innlent

Trassaskapur sýslumanna

Enn fá sýslumenn á baukinn frá dómurum fyrir slægleg vinnubrögð við framgang refsimála, sem kemur sakborningum til góða í vægari refsingu en ella. Nýjasta dæmið er frá því í fyrradag þegar Héraðsdómur Reykjaness setti ofan í við sýslumann í Keflavík fyrir að birta síbrotamanni ekki ákæru fyrr en 30 mánuðum eftir að rannsókn lauk. Í ofanálag getur dómarinn þess að sýslumaður hafi sett ranga dagsetningu í ákæruna og yngt lok rannsókninnar upp um eitt ár. Dómarinn kallar það reyndar prentvillu. Í dómnum segir að dráttur þessi sé óhæfilegur og hafi ekki verið skýrður. Dómarinn segir málsmeðferðina brjóta í bága við lög um meðferð opimberra mála og sé í andstöðu við stjórnarskránna í tengslum við samning um verndun mannréttinda og mannfrelsis, samanber lög um mannréttindasáttmála Evrópu. Eins og nokkrum sinnum áður upp á síðkastið, nýtur sakborningurinn trassaskapar sýslumanns, og hlaut hann vægari dóm en ella. Að minnsta kosti þrjú mál af sama toga hafa komið upp á þessu ári og varða þau öll óhæfilegan drátt sýslumannsins í Hafnarfirði við að birta ákærur í sakamálum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×