Innlent

1.200 umsóknir um 46 lóðir

Dregið var úr nær tólf hundruð umsóknum um 46 einbýlishúsalóðir í Hafnarfirði í bæjarráði Hafnarfjarðar á þriðjudagskvöld. Elsti umsækjandinn sem fær úthlutaða lóð er 77 ára gamall en sá yngsti 21 árs. Einnig var dregið úr rétt um 160 umsóknum verktaka í sjö einbýlishús og tvær raðhúsalengjur. Hafsteinn M. Guðmundsson var einn þeirra sem fékk ásamt konu sinni Arnþrúði Kristjánsdóttur úthlutaða lóð á Völlum. "Það kom verulega á óvart að vera dreginn út. Við vildum gjarnan komast niður á jörðina," segir Hafsteinn og vísar í að þau hjónin búa í blokk en láta nú drauminn um einbýli rætast. Hafsteinn segir þau velta fyrir sér hvar á svæðinu þeirra lóð standi. Þau sjái fyrir sér að flytja inn í nýtt hús eftir tvö til þrjú ár. Verð lóðanna var reiknað út frá gatnagerðargjöldum og er því misjafnt. Það nemur um 4,3 milljónum með aukagjöldum fyrir einstaklingslóð þar sem 250 fermetra einbýlishús rís. "Verð lóðarinnar hefði þótt dýrt hér áður en nú er vel sloppið," segir Hafsteinn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×