Innlent

Vill fleiri íslenskar sendinefndir

Forseti Kína vill fá fleiri sendinefndir frá Íslandi í heimsókn, þar á meðal frá stjórnmálaflokkunum, verkalýðsfélögunum og almannafélögum ýmiss konar, eftir því sem Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, segir, en þeir áttu fund í Peking nú fyrir hádegi. Eva Bergþóra Guðbergsdóttir, fréttamaður Stöðvar 2 og Bylgjunnar, er í Kína. Ólafur Ragnar og Hu Jintao, forseti Kína, ræddu m.a. frekari samskipti ríkjanna og lýðræðisþróunina í Kína. Ólafur segir að fundurinn hafi gengið framar öllum vonum og hann hefði ekki getað búist við betri fundi. Þeir ræddu öll svið viðskiptalífsins og kom það forseta Íslands á óvart hve vel kunnugur Jintao er ákveðnum íslenskum fyrirtækjum og á hvaða sviðum við erum sterk. Þeir ræddu einnig mannréttindamál og segir Ólafur Ragnar að Kínaforseti hafi lýst því eindregið yfir að hann vilji halda áfram opinskáum viðræðum við Íslendinga um lýðræðisþróun. Auk þess vill hann fá fleiri sendinefndir frá Íslandi í heimsókn, þar á meðal frá stjórnmálaflokkunum, verkalýðsfélögunum og almannafélögum ýmiss konar. Herlúðrasveit Kínverja lék íslenska þjóðsönginn til heiðurs gestunum í morgun. Það var nokkuð sérstök upplifun því um leið heyrðust í fjarska háværar fallbyssudrunur. Forsetahjónin litu á Kínamúrinn i morgun. Á sama tíma hefur sendinefndin verið að festa íslensk fyrirtæki á borð við Atlanta og Össur í sessi í Kína. Meira um heimsókn íslensku sendinefndarinnar til Kína í fréttum Stöðvar 2 í kvöld.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×