Innlent

Dansað á Bóhem án atvinnuleyfis

Þrjár tékkneskar stúlkur, sem starfa við súludans á Bóhem, hafa verið teknar án atvinnuleyfis og færðar til yfirheyrslu. Stúlkurnar voru kallaðar til skýrslutöku hjá lögreglu fyrir helgina og mættu svo fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur í gær til að staðfesta framburð sinn. Stúlkurnar viðurkenndu að hafa verið fengnar til landsins til að vinna við súludans á Bóhem. Samkvæmt áreiðanlegum heimildum Fréttablaðsins verður rekstraraðili staðarins, Hlynur Vigfússon, ákærður fyrir brot á lögum um atvinnuréttindi útlendinga og innflutning á erlendu vinnuafli án leyfis. Búist er við að það mál fái flýtimeðferð. Engin ákæra verður gefin út á hendur stúlkunum. Þær komu hingað til lands í góðri trú um að öll leyfi væru til staðar og höfðu verið hér í viku þegar þær voru kallaðar fyrir Héraðsdóm í gær. Þær eiga pantað flug heim í dag. Lögreglan í Reykjavík hefur tekið þrjá dansara til viðbótar fyrr í vetur, annars vegar tvær og hinsvegar eina sem ekki höfðu atvinnuleyfi hér á landi. Þessar stúlkur störfuðu allar við súludans á Bóhem. Hlynur Vigfússon, rekstraraðili Bóhem, neitaði að tjá sig um málið þegar Fréttablaðið hafði samband við hann í gær. Lögreglan í Reykjavík hefur rannsakað níu mál frá áramótum sem öll snerta atvinnu án leyfa, mál tékknesku dansaranna meðtalið. Málin snerta í allt vel á annan tug einstaklinga og er rúmur helmingurinn iðnverkamenn hjá samtals átta til níu atvinnurekendum. Í sumum tilfellum eru þeir fjórir sem hafa verið teknir saman í hóp, í öðrum tilfellum þrír og enn öðrum bara einn. Atvinnurekendurnir hafa ekki verið teknir áður fyrir brot á lögum um atvinnuréttindi útlendinga. Þeir sem stuðluðu að innflutningi erlendu verkamannanna mega búast við því að fá ákæru á hendur sér.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×