Innlent

Ræðst af sjávarhita eða tunglstöðu

"Ef raunin er sú að hrygningarfiskur sé fyrr á ferðinni hefði mér nú fundist nærtækast að tengja það skilyrðum í hafinu, svo sem sjávarhita," segir Björn Ævarr Steinarsson, fiskifræðingur og sérfræðingur Hafrannsóknastofnunar í þorski og botnfiskum, en greint var frá því í byrjun vikunnar að smábátasjómenn í Reykjavík teldu fisk koma fyrr inn til hrygningar en áður. Þá þótti sjómönnum rauðmagi vera snemma á ferðinni, en hann kemur á undan grásleppunni til að helga sér svæði áður en hann frjóvgar egg hennar. Björn segir sýnatökur í janúar að hefjast, en lauslegar fyrirspurnir bendi til að göngur kunni að vera eitthvað fyrr á ferðinni. "Þær geta hins vegar verið breytilegar um einhverjar vikur frá ári til árs. Sumir sjómenn eru með þá skýringu að þetta tengist páskum, sem hlýtur þá aftur að tengjast tunglstöðu. Að óathuguðu vil ég ekki fullyrða um það, en finnst þó líklegra að þetta tengist öðrum breytingum í hafinu," sagði hann.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×