Erlent

Fengu ekki að hitta alla fanga

Jakob Kellenberger forseti Alþjóða Rauða krossins á blaðamannafundi í Genf í gær.
Jakob Kellenberger forseti Alþjóða Rauða krossins á blaðamannafundi í Genf í gær.

Háttsettur embætti­smaður­ í bandaríska utanríkisráðuneytinu hefur staðfest að fulltrúum Rauða krossins hafi ekki verið veittur aðgangur að öllum þeim föngum sem eru í haldi Bandaríkjamanna, grunaðir um aðild að hryðjuverkum. Frá þessu greindi forseti Alþjóða Rauða krossins (ICRC) í gær.

John B. Bellinger III, lögfræðiráðgjafi utanríkisráðuneytisins í Washington, var spurður að því í höfuðstöðvum Rauða krossins í Genf hvort fulltrúar samtakanna hefðu fengið að vitja allra slíkra fanga sem væru í haldi Bandaríkjamanna. Bellinger svaraði því neitandi en neitaði að skýra svar sitt nánar. Jakob Kellenberger, forseti Alþjóða Rauða krossins, sagði að hann hefði í meira en tvö ár þrýst á háttsetta fulltrúa Bandaríkjastjórnar að ganga úr skugga um að fulltrúar samtakanna fengju aðgang að öllum þeim stöðum þar sem Bandaríkjamenn héldu meintum hryðjverkamönnum föngnum.

Meðal skilgreindra verkefna ICRC samkvæmt Genfarsáttmálunum er að hafa eftirlit með því hvaða meðferð stríðsfangar sæta. "Við höldum áfram viðræðum við þá um að fá aðgang að öllum þeim sem handteknir hafa verið í nafni hins svokallaða stríðs gegn hryðjuverkum, án landfræðilegra takmarkana," sagði Kellenberger.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×