Innlent

Grundvallarbreyting á bótakerfinu

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra boðaði tekjutengingu atvinnuleysisbóta.
Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra boðaði tekjutengingu atvinnuleysisbóta.

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra gerir ráð fyrir að á yfirstandandi þingi verði lagt fram og lögfest frumvarp um atvinnuleysisbætur í samræmi við nýtt samkomulag ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins. Atvinnuleysisbætur verði þar í fyrsta skipti tekjutengdar og 180 þúsund króna þak sett á þær í samræmi við nánari útfærðar reglur.

Halldór segir að hér sé um grundvallarbreytingu að ræða. Um helmingur atvinnuleysis sé í þrjá mánuði að minnsta kosti og niðurstaða nefndar á vegum félagsmálaráðherra sé að þeir sem fyrir því verði geti notið allt að sjötíu prósenta launa fyrstu þrjá mánuðina.

Halldór sagði jafnframt á fundi með blaða- og fréttamönnum í fyrradag að vilji væri til þess að samræma reglur um örorkubætur úr almannatryggingakerfinu og lífeyrissjóðakerfinu. Fram kom að skipuð yrði nefnd á næstu dögum til þess að fara yfir málið.

Halldór sagði að skýra þyrfti reglur, samræma og ef til vill herða þær. Sjálfur skipar hann formann nefndarinnar en ætlunin er að hún skili niðurstöðum sem fyrst.

Kostnaður ríkisins vegna málsins verður í fyrstu 1,5 milljarðar króna en allt að tveir milljarðar árið 2009. Halldór taldi samningana í vikunni afar mikilvæga og þeir mörkuðu ákveðin tímamót.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×