Innlent

Segja fiskimiðin vera dauð

Níels Ársælsson.
Níels Ársælsson.

"Það vita það allir sem eru til sjós að það er varla nokkurt æti til fyrir fiskinn lengur, maður sér það best á því að allur sjófugl er alveg horfinn og svo er fiskurinn svo horaður að hann er ekkert nema hausinn," segir Níels Ársælsson, útgerðarmaður frá Tálknafirði.

Hann er einn þeirra fjölmörgu Vestfirðinga sem hafa miklar áhyggjur af þessari þróun. Þeir benda á að varp sjófugla hafi að miklu leyti misfarist í sumar vegna fæðuskorts. "Það er greinilegt að það er mikill fæðuskortur því hrefnan sem við veiddum í sumar var horuð og vannærð og enginn sjófugl sjáanlegur nokkurs staðar.

Miðin eru alveg líflaus," segir Guðmundur Konráðsson, sjómaður frá Ísafirði. Hafrannsóknarstofnun rannsakar nú spiklag og mataræði hrefnanna sem veiddar hafa verið tvö síðustu sumur en ekkert hefur enn komið úr þeim rannsóknum og er niðurstöðu ekki að vænta fyrr en í vor. Ársæll segir skýringuna vera loðnuveiði manna undanfarin ár með flottrollum en ekki hringnót eins og áður tíðkaðist.

"Með þessum flottrollum tvístra þeir göngunum og svo byrja þeir austast og þar með taka þeir sterkustu loðnuna og stráfella hana."

Níels segir að þar sem þorskurinn hafi varla nokkra loðnu lengur á matseðlinum hafi hann gengið á sandsílin sem nú séu að hverfa við landið og svo éti þorskurinn undan sér, það er að segja afkvæmi sín, og það hafi bitnað á nýliðuninni. Hann segir ennfremur að þessi loðnuveiði hafi orðið til þess að skelfiskveiði hafi lagst af í Breiðafirði og að innfjarðar- sem og úthafsrækja sé nú nær með öllu horfin.

Aðrir sjómenn og útgerðarmenn sem Fréttablaðið hafði samband við segja fæðuskortinn stafa af hlýnun sjávar. Nefna þeir í því sambandi að ýsunni hefur stórfjölgað en hún sækir frekar í hlýrri sjó en þorskurinn.

Einnig nefndu menn að skötuselurinn og annar fiskur sem venjulega ­fannst­ aðeins sunnan við land er nú orðinn mun algengari fyrir norðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×