Innlent

Ávinningur hreyfingar tapast

Hildur Thors er læknir við Heilbrigðisstofnun Suðurlands og gerði nýverið rannsókn á sambandi hreyfingar og hjartaáfalla.
Hildur Thors er læknir við Heilbrigðisstofnun Suðurlands og gerði nýverið rannsókn á sambandi hreyfingar og hjartaáfalla.

Ný rannsókn leiðir í ljós að þeir sem stunda reglubundna hreyfingu á yngri árum njóta ekki hreyfingarinnar, með tilliti til hættu á hjartaáföllum síðar, hætti þeir að hreyfa sig. Til að minnka líkur á hjartaáfalli þarf að halda áfram að hreyfa sig. Þeir sem hafa verið kyrrsetumenn ungir, geta hins vegar minnkað líkurnar á hjartaáfalli með því að byrja að hreyfa sig reglulega.

Rannsóknina gerði Hildur Thors, heilsu­gæslu­læknir á Heil­brigðis­stofn­un Suður­lands, í meist­ara­námi í lýðheilsufræðum við Karo­­linska Institutet í Svíþjóð. Hún skoðaði hvernig munstur hreyfinga hjá ákveðnum hópi breytt­ist yfir ævina.

Í frétt Heilbrigðisstofnunar Suðurlands kemur fram að rann­sóknin hafi staðfest mikilvægi þess að hreyfa sig reglulega alla ævina. "Hún sýnir einnig að það er vandamál hvað margir hætta að hreyfa sig með hækkandi aldri og það hefur áhrif á tíðni hjartaáfalla hjá þjóðinni. Við þurfum því að rannsaka nánar hvað veldur og hvernig hægt er að koma í veg fyrir þessa breytingu."

Hópurinn sem Hildur skoðaði samanstóð af 3.696 einstaklingum, bæði konum og körlum, á aldrinum 45 til 70 ára. Allir gáfu upplýsingar um hve mikið þeir höfðu hreyft sig á mismunandi aldri. Hluti af hópnum hafði fengið hjartaáfall og var borinn saman við hina.

Með hækkandi aldri minnkaði hlutfall þeirra sem hreyfa sig reglu­lega, sérstaklega meðal karla. Á aldrinum 15 til 24 ára hreyf­ðu tæplega 60 pró­sent sig reglu­lega, jafnt þeir sem fengu hjarta­áfall síðar og hinir.

"Með hækkandi aldri lækkaði hlutfall þeirra sem hreyfðu sig reglulega jafnt og þétt en marktækt meira hjá þeim hópi sem fékk hjartaáfall síðar á ævinni."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×