Innlent

Byggðastofnun hætt að lána

Framkvæmdir á Bíldudal. Bygging kalkþörungaverksmiðju komst í uppnám eftir að Landsbankinn vildi ekki lána fé til framkvæmdanna.
Framkvæmdir á Bíldudal. Bygging kalkþörungaverksmiðju komst í uppnám eftir að Landsbankinn vildi ekki lána fé til framkvæmdanna.

Stjórn Byggðastofnunar tók ákvörðun um það í lok október að stöðva allar lánveitingar í bili. Að sögn Aðalsteins Þorsteinssonar, framkvæmdastjóra Byggðastofnunar, var stofnunin komin undir þau mörk sem fjármálaeftirlitið setur varðandi eiginfjárhlutfall fjármálastofnana.

"Okkur þótti því skynsamleg afstaða að staldra aðeins við. Hvað þetta ástand varir lengi þori ég ekki að segja til um eins og er, en það er nefnd á vegum iðnaðarráðherra að fara yfir stöðu stofnunarinnar í ljósi þess að rekstrarumhverfið hefur breyst."

Aðalsteinn kveðst ekki gera aðrar kröfur til stjórnvalda nema að þau taki afstöðu til hlutverks Byggðastofnunar og með hvaða hætti hún eigi að starfa. Sjálfur telur hann þörf fyrir lánastarfsemi af þessu tagi, því þótt þjónusta banka og fjármálafyrirtækja hafi aukist undanfarin ár og aðgengi að fjármagni aukist, séu enn mörg brýn verkefni sem bankarnir vilja ekki fjármagna.

"Ég á bágt með að tjá mig um einstök dæmi, þar sem það hvílir bankaleynd á þessum viðskiptum, en nýlega var sagt frá því í fréttum að Landsbankinn vildi ekki veita lán til byggingar kalkþörungaverksmiðju á Bíldudal. Ég myndi segja að þetta væri skýrt dæmi um að það er enn þörf fyrir stofnun á borð við Byggðastofnun."

Aðalsteinn segist sjá Byggðastofnun áfram sem fjármálastofnun, en nýrri stefnumótun, sem stendur yfir núna, verði að vera lokið fyrir áramót. "Við erum komnir í klemmu hvað varðar lagaskilyrði gagnvart fjármálaeftirlitinu og það eitt og sér veldur því að stofnunin gæti misst starfsleyfið verði ekki brugðist við." Þá bendir hann á að bág fjárhagsstaða Byggðastofnunar hafi blasað við lengi og sú endurskoðun sem á sér stað núna hefði átt að fara fyrr af stað og ganga hraðar fyrir sig.

"En það er kominn fullur kraftur í það starf núna og ég á von á að því ljúki fyrir áramót." Ekki náðist í Valgerði Sverrisdóttur iðnaðarráðherra vegna málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×