Innlent

Sótti um án samráðs við stjórn

Fyrrverandi alþingismaðurinn Guðjón Guðmundsson, sem ráðinn hefur verið framkvæmdastjóri dvalarheimilisins Höfða á Akranesi, segist hafa sótt um stöðuna einfaldlega vegna þess að hann taldi sig uppfylla þær hæfniskröfur sem fram komu þegar staðan var auglýst. Deilur hafa risið um forsendur fyrir ráðningu hans og hafa bæjarbúar tjáð sig um það á vef Akraneskaupstaðar að það sé pólitísk lykt af ráðningunni. Sjálfur þvertekur Guðjón fyrir það að hafa haft samráð við stjórn dvalarheimilsins eða bæjarstjórnarminnihluta Sjálfstæðisflokksins þegar hann lagði fram umsókn sína. Fram kom í auglýsingu að óskað væri eftir einstaklingi sem hefði þekkingu á stjórnsýslusviði, bókhaldsþekkingu og hæfni í mannlegum samskiptum auk þess að vera búsettur á svæðinu. Guðjón telur sig uppfylla þessar kröfur. Guðjón sat á Alþingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn í tólf ár auk þess sem hann sat í bæjarstjórn Akraness samtals í jafn langan tíma. Eins hefur hann viðamikla reynslu af bókhaldi sem skrifstofustjóri Skipasmíðastöðvar Þorgeirs og Ellerts. Það olli einnig nokkrum deilum á sínum tíma þegar Ásmundur Ólafsson fráfarandi framkvæmdastjóri var ráðinn en hann hefur hinsvegar þótt farsæll í starfi. Sigríður Gróa Kristjánsdóttir er formaður stjórnar dvalarheimilisins. Hún tók það fram í samtali við blaðamann að þótt hún hefði greitt Brynju Þorbjörnsdóttur, fyrrverandi útibússtjóra Íslandsbanka atkvæði sitt þá sé það mikilvægast að sátt skapist um nýjan framkvæmdastjóra og vill hún bjóða hann velkominn til starfa. Það sem skipti máli sé framtíð heimilisins og rekstur þess í þágu heimilismanna og starfsfólks. Aðspurð hvort ráðningin hafi verið pólitísk segir Sigríður að Guðjón hafi uppfyllt öll þau skilyrði sem sett voru fyrir ráðningunni og þar við sitji.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×