Innlent

Áróður og eftirlit skilar árangri

"Á heildina er litið erum við mjög ánægð með það að þetta skuli hafa verið stórslysalaus helgi. En þó að vel hafi gengið núna megum við ekki sofna á verðinum því það er óhætt að segja að í þessum tilfellum þar sem menn voru teknir fyrir ofsa- og ölvunarakstur þá hefði lítið þurft út að bregða til að þar yrðu stórslys," segir Einar Magnús Magnússon upplýsingafulltrúi Umferðarstofu. Frá fimmtudegi til aðfaranótt þriðjudags voru 56 teknir fyrir ölvunarakstur og 513 fyrir of hraðan akstur, að sögn Hjálmars Björgvinssonar, aðalvarðstjóra hjá ríkislögreglustjóra. Hann segir að þær tölur séu svipaðar og frá árinu á undan. Ekki er ljóst hversu margir verða sviptir ökuleyfi en það veltur í sumum tilvikum á því hversu marga punkta ökumenn hafa. Hjálmar telur að margir samverkandi þættir hafi stuðlað að stórslysalausri helgi og Einar tekur undir það. "Stærsta hlutverkið eiga ökumenn sjálfir, þeir eru yfirleitt til fyrirmyndar. En það sem spilar stóran þátt í þessu er aukið eftirlit lögreglu, umfjöllun fréttastofa fjölmiðlanna og almennur áróður. Þetta skilar sér allt," segir Einar. Hjálmar segir að umferðareftirlit lögreglu hafi ekki verið meira um verslunarmannahelgina en undanfarin ár, en telur að umferðarátak sem samgönguráðuneytið og undirstofnanir þess, Vegagerðin, ríkislögreglustjóri og Umferðarstofa, hófu í lok júní skili árangri. "Svo er það tilfinning okkar að umferðin hafi dreifst meira þessa verslunarmannahelgi, fólk fór úr bænum á fimmtudeginum og stór hluti fór til baka á sunnudeginum. Ökumenn eru farnir að átta sig á aðstæðum og við viljum koma á framfæri þakklæti til þeirra," segir Hjálmar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×